Frekari upplýsingar úr reikningi sjá meðfylgjandi skjal,
ReykjavíkurborgFréttatilkynning
Í dag hélt Þórólfur Árnason
borgarstjóri blaðamannafund í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem ársreikningur
borgarinnar fyrir árið 2002 var lagður
fram. Ársreikningurinn var kynntur í Borgarráði í hádeginu og verður svo ræddur
á aukafundi borgarstjórnar sem fram fer á morgun.
1. Nýjar reikningsskilareglur
Við gerð ársreiknings fyrir árið
2002 er horfið frá sértækri reikningsskilaaðferð og framsetningu við gerð
ársreikninga sveitarfélaga.
Reikningsskil sveitarfélaga eru nú færð til samræmis við almenn
reikningsskil fyrirtækja. Í bókhaldi er
lögð áhersla á að leiða fram beinan raunkostnað einstakra rekstrareininga á
reikningsárinu. Af þeim ástæðum á til
að mynda að krefja rekstrareiningar um hlutdeild í sameiginlegum
rekstrarkostnaði og reikna og færa innri leigu vegna húsnæðis, tækja og
áhalda. Í áritun borgarendurskoðanda á
ársreikning Reykjavíkurborgar kemur fram að hann gefi glögga mynd af rekstri
árið 2002, efnahag í árslok og breytingu á handbæru fé árið 2002 í samræmi við
lög, reglur og góða reikningsskilavenju.
Rekstrareiningar borgarinnar
skiptast í A- og B-hluta og endurspeglast sú skipting í reikningsskilunum. Til A-hluta, þ.e. borgarsjóðs, telst
starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða aðalsjóð (málaflokka),
eignasjóð, skipulagssjóð og Innkaupastofnun Reykjavíkur. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð
fyrirtæki sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu borgarinnar en rekstur þeirra
er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Aflvaki
hf. Alþjóðahúsið ehf. Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Félagsbústaðir hf. Fráveita
Reykjavíkur, Malbikunarstöðin Höfði hf. Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurhöfn,
Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. Sorpeyðing
höfuðborgarsvæðisins bs. Strætó bs. og Vélamiðstöð ehf.
2. Samræmi milli rekstrar og
fjárheimilda málaflokka
Vegna nýrrar framsetningar
ársreiknings er flókið að greina frávik frá fjárhagsáætlun í rekstri málaflokka
borgarinnar eins og tíðkast hefur. Í
hjálagðri endurskoðunarskýrslu Borgarendurskoðunar á bls. 19 er tafla 4 þar sem
frávikagreining er leiðrétt og aðlöguð til samanburðar við fjárhagsáætlun og
framsetningu fyrri ára. Eftir aðlögun
er heildarrekstrarútkoma málaflokka 21.859,6 mkr. sem er 0,1% undir
fjárheimildum sem námu 21.876,4 mkr.
Þótt heildarniðurstaðan sé í fullu samræmi við áætlun er nokkur munur
milli málaflokka, því að sumir skila afgangi en aðrir fara fram úr
heimildum. Samkvæmt reglum borgarinnar
flyst afgangur eða halli milli ára. Því
verða þeir málaflokkar sem fara fram úr útgjaldaheimildum í ár að takast á við
þann vanda með hagræðingu og sparnaði á næsta ári.
3. Skatttekjur, afkoma og efnahagur
Skatttekjur voru í fjárhagsáætlun
áætlaðar 27.204 mkr. en niðurstaðan varð 428 mkr. lægri eða 26.776 mkr. Skýringin er sú að tekjur af
fasteignagjöldum voru ofáætlaðar en óvissa var varðandi þann þátt vegna almenns
endurmats eigna hjá Fasteignamati ríkisins.
Rekstrarafkoma Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) var jákvæð um 2.496,6
mkr. Rekstrartekjur ársins voru fyrir
samantekinn A- og B-hluta 48.602,0 mkr. og rekstrargjöld 51.877,9 mkr. en
hreinar fjármunatekjur voru 3.306,6 mkr.
Eigið fé Reykjavíkurborgar í áslok nam 86.604,7 mkr. Handbært fé frá rekstri Reykjavíkurborgar
(A- og B-hluta) samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam 6.231,0 mkr. eða 13% af rekstrartekjum en hefði að óbreyttum reikningsskilum verið
13.7%. Handbært fé frá rekstri
A-hlutans var 11,9% af skatttekjum en hefði að óbreyttum reikningsskilum verið
13,5%. Fjárfestingarhreyfingar
voru samtals 16.181,9 mkr. og var þeim mætt með framlagi frá rekstri og nýjum
langtímalánum.
4. Skuldir
Skuldir A-hluta voru í árslok
18.539 mkr og hækkuðu um 3.046 mkr. milli ára.
Skýringa er einkum að leita í breyttum reikningsskilareglum en samkvæmt
þeim eru orlofsskuldbindingar að
fjárhæð 845 mkr. nú færðar til skuldar, en voru áður utan efnahags. Það á
einnig við um skuldbindingar vegna skautahallarinnar í Laugardal og vegna
áhorfendastúku á Laugardalsvelli, samtals að fjárhæð 260 mkr. Þá eru nú færðar til skuldar fyrirfram
innheimtar tekjur vegna gatnagerðargjalda og framlag úr Jöfnunarsjóði vegna
skólabygginga að fjárhæð 1.081 mkr. sem áður voru færðar til lækkunar á
fjárfestingakostnaði ársins. Á árinu 2002 fjárfesti skipulagssjóður í lóðum og
löndum fyrir 1.900 mkr. sem að hluta til var fjármagnað með lánum.
Samanteknar skuldir A-og B-hluta
voru í árslok 57.111 mkr. og hækkuðu um 9.646 mkr. Helstu skýringar auk skýringa við A-hluta eru þær að Orkuveitan
hefur gert upp lífeyrisskuldbindingu sína gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna
Reykjavíkurborgar og hækkar það langtímaskuldir um 2.742 mkr. Vegna framkvæmda og annarra fjárfestinga
hækka skuldir Orkuveitunnar um 1.500 mkr., hjá Reykjavíkurhöfn um 800 mkr. og
hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um 300 mkr. Þá hækka skuldir um 700 mkr. hjá Félagsbústöðum vegna kaupa á
félagslegur leiguhúsnæði.