Markaðsfréttir
  Útgefendur
  Fréttaflokkar
  Leit
  Vefur Kauphallar
  English version
    
Fyrirtækjalisti > Nýjustu fréttir > Fréttir á ákveðnum degi > Fréttir frá tímabili
Prentvæn útgáfa
SKEL
Yfirtökutilboð og tikynning um innlausn vegna hluta í Skeljungi   21.8.2003 11:07:00
Flokkur: Fyrirtækjafréttir      Íslenska

OPINBERT TILBOÐSYFIRLIT ÁSAMT UPPLÝSINGUM UM INNLAUSN

 

Steinhólar ehf. (hér eftir nefnt Steinhólar eða tilboðsgjafi), kt. 410803-2750, Austurstræti 5, 101 Reykjavík, hefur nú eignast 94,1% hlut í Skeljungi hf. (hér eftir nefnt Skeljungur), kt. 590269-1749, Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík. Steinhólar er því orðið yfirtökuskylt gagnvart öðrum hluthöfum Skeljungs á grundvelli VI. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og hefur félagið því ákveðið að gera hluthöfum Skeljungs eftirfarandi tilboð. Samhliða yfirtökuskyldunni hafa Steinhólar öðlast innlausnarrétt á hendur öðrum hluthöfum Skeljungs á grundvelli 24. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Félagið hefur því ákveðið að aðrir hluthafar Skeljungs skuli sæta innlausn á hlutum sínum sbr. tilkynning þessi um innlausn (innlausnarréttur stofnast þegar hluthafi hefur eignast meira en 90% hlutafjár í hlutafélagi). Vegna þess að yfirtökuskylda og innlausnarréttur hafa stofnast samhliða hafa Steinhólar ákveðið að senda samtímis opinbert yfirtökutilboð og tilkynningu um innlausn (innlausn er send með samþykki stjórnar Skeljungs). Hluthöfum er boðið sama verð hvort sem þeir ákveða að ganga að yfirtökutilboði eða sæta innlausn. Helsti munurinn á þessu tvennu er sá að hluthafar hafa val um það hvort þeir ákveða að ganga að yfirtökutilboði en Steinhólar geta þvingað hluthafa til að sæta innlausn samanber tilkynning þessi.

 

1. gr.

Tilboðið og innlausnin tekur til allra hluta í Skeljungi sem ekki eru þegar í eigu Steinhóla, en Steinhólar hafa þegar tryggt sér 94,1% hlut í Skeljungi.

 

2. gr.

Kaupþing Búnaðarbanki hf. hefur umsjón með tilboði þessu og innlausn f.h. tilboðsgjafa og er heimilt að setja fram yfirtökutilboð og senda tilkynningu um innlausn fyrir hönd Steinhóla og Skeljungs.

 

3. gr.

 

YFIRTÖKUTILBOÐ

 

Steinhólar bjóðast með tilboði þessu til að greiða öðrum hluthöfum Skeljungs kr. 15,9 fyrir hvern hlut sem er hæsta verð sem tilboðsgjafi hefur greitt fyrir hluti í Skeljungi síðustu sex mánuði.

 

Tilboðshafar (hluthafar) sem vilja samþykkja tilboð þetta skulu undirrita samþykki sitt á framsalseyðublað sem sent verður á lögheimili þeirra og senda aftur til fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings Búnaðarbanka hf. ásamt vörslusamningi ef hluthafar eru ekki með vörslureikning. Þegar bankanum hefur borist frumrit framsals á eignarrétti að hlutum í Skeljungi mun andvirði hluta í Skeljungi lagt inn á bankareikning hluthafa sem tilgreindur er í framsali eigi síðar en sólarhring eftir að framsal berst, nema hluthafi óski sérstaklega eftir því að andvirði þeirra verði ráðstafað með öðrum hætti. Telst framseldur hlutur frá og með þeim degi eign tilboðsgjafa. Sérstök athygli er vakin á því að séu framseldir hlutir veðsettir verður ekki greitt fyrir hlutina nema veði hafi verið aflétt af hlutunum. Ef hluthafar samþykkja yfirtökutilboð sæta þeir ekki innlausn og eiga því ákvæði þessarar tilkynningar um innlausn ekki við um þá.

 

4. gr.

Gert er ráð fyrir að Skeljungur muni vinna eftir þeirri meginstefnu að einbeita sér að olíuviðskiptum. Ekki er fyrirhugað að gera breytingar á tilgangi félagsins og ekki eru á þessu stigi áform um að draga úr kjarnastarfsemi félagsins eða nýta fjármunalegar eignir í öðrum tilgangi. Engar breytingar á samþykktum félagsins eru fyrirhugaðar meðan það er skráð í Kauphöll Íslands hf., en tilboðsgjafi hyggst hlutast til um að félagið verði afskráð úr Kauphöll Íslands hf.

 

 

5. gr.

Yfirtökutilboð þetta rennur út kl. 16:00,  þann 19. september 2003.

 

 

6. gr.

 

INNLAUSN HLUTHAFA SEM EKKI TAKA YFIRTÖKUTILBOÐI

 

Taki hluthafar Skeljungs ekki yfirtökutilboðinu eru þeir engu að síður hvattir til að framselja hluti sína í Skeljungi til Steinhóla eigi síðar en 4 vikum eftir að yfirtökutilboð og tilkynning þessi er send eða eigi síðar en föstudaginn 19. september 2003 sbr. 24. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög (innlausn). Notast skal við sama framsalseyðublað og þegar yfirtökutilboð er samþykkt og ákvæði um vörslusamning og greiðslu fyrir hluti sbr. yfirtökutilboð á einnig við um innlausn.

 

Hafi framsal ekki borist bankanum innan fjögurra vikna munu Steinhólar greiða andvirði hlutanna inn á geymslureikning á nafn hluthafa. Hluthafi getur nálgast andvirði hins selda á geymslureikningi nema hinir seldur hlutir séu veðsettir. Frá þeim tíma teljast Steinhólar réttur eigandi hluta, sbr. 25. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Séu hluthafar Skeljungs ósáttir við það verð sem er boðið geta þeir sent bréf eða aðra tilkynningu með formlegum hætti til fyrirtækjaráðgjafar bankans þar sem hluthafar lýsa því yfir að þeir séu ósáttir við það verð sem er í boði. Berist slík tilkynning verður verðið ákveðið af matsmönnum sem dómkvaddir eru á heimilisvarnarþingi Skeljungs. Ef ákvörðun matsmanna leiðir til hærra innlausnarverðs en Steinhólar bauð gildir það einnig fyrir aðra hluthafa sem ekki hafa beðið um mat. Ef matið leiðir til hærra verðs gildir það bæði um hluthafa sem samþykkja yfirtökutilboð og einnig hluthafa sem framselja á grundvelli innlausnar. Matskostnað greiða Steinhólar nema dómstóll telji vegna sérstakra ástæðna að viðkomandi minni hluti hluthafa skuli að nokkru eða öllu leyti greiða kostnaðinn.

 

 

 

Reykjavík 20. ágúst 2003.

 

f.h. Steinhóla ehf.

 

Kaupþing Búnaðarbanki hf.

 

 

____________________

 

 

 

 

 


Til baka