Fréttatilkynning frá Hf. Eimskipafélagi Íslands, Sjóvá
– Almennum tryggingum hf. og Kaupþingi Búnaðarbanka hf.
Reykjavík,
5. ágúst 2003
Steinhólar ehf. eignast yfir 90% í Skeljungi hf.
Tilboð
til hluthafa væntanlegt
Eignarhaldsfélagið Steinhólar ehf.
hefur eignast yfir 90% af virkum eignarhlut í Skeljungi og mun á næstunni gera
öllum hluthöfum Skeljungs tilboð þar sem boðist verður til að innleysa hluti
þeirra á genginu 15,9. Að Steinhólum standa dótturfélag Eimskipafélags Íslands,
Burðarás (með 25% hlut), Sjóvá-Almennar tryggingar (25%) og Kaupþing
Búnaðarbanki (50%). Þessir hluthafar munu standa saman að rekstri Skeljungs og
áforma að selja þær eignir félagsins sem ekki tengjast kjarnastarfsemi þess.
Burðarás, Sjóvá-Almennar tryggingar
og Kaupþing Búnaðarbanki hafa gert með sér samkomulag um að selja alla
eignarhluti sína í Skeljungi til Steinhóla ehf. á genginu 15,9 krónur fyrir
hvern hlut. Burðarás selur 176.351.072 hluti (23,35%), Sjóvá-Almennar
tryggingar selja 189.005.625 hluti (25,02%) og Kaupþing Búnaðarbanki selur
299.287.701 hluti (39,62%). Þá hafa Steinhólar ehf. tryggt sér kaup á 8.575.354 hlutum til viðbótar. Steinhólar ehf. fara því með samtals 673.219.752 hluti í Skeljungi eða sem nemur 90,7% af atkvæðamagni
félagsins.
Samhliða framangreindum viðskiptum mun Burðarás kaupa
alla hluti Skeljungs í Eimskipafélagi Íslands og Sjóvá – Almennar
tryggingar munu kaupa hluti Skeljungs í
Sjóvá – Almennum tryggingum og Flugleiðum. Auk þess stefna yfirtökuaðilar að
því að selja aðrar eignir sem ekki tengjast kjarnastarfsemi Skeljungs.
Steinhólar ehf. munu á næstunni gera öllum hluthöfum
Skeljungs tilboð um að kaupa hluti þeirra á genginu 15,9, sem er hæsta verð sem
aðilar hafa greitt í viðskiptum sínum með bréf í Skeljungi á síðustu sex
mánuðum og beita sér samhliða fyrir því að innlausnarréttur gagnvart hluthöfum
verði nýttur. Stefnt er að því að afskrá hlutabréf Skeljungs úr Kauphöll
Íslands.
Hluthafar Steinhóla ehf. hafa
gagnkvæman kauprétt hver á hlutum annars í Steinhólum ehf. Jafnframt eiga Burðarás
og Sjóvá-Almennar tryggingar sölurétt á hlutum sínum í Steinhólum ehf. gagnvart
Kaupþingi Búnaðarbanka hf.
Eftirtaldir
aðilar teljast innherjar vegna viðskipta með hlutabréf Skeljungs: Benedikt
Jóhannesson er stjórnarformaður Burðaráss og Skeljungs, Friðrik Jóhannsson er
framkvæmdastjóri Burðaráss og varamaður í stjórn Skeljungs, Hörður
Sigurgestsson situr í stjórn Burðaráss og Skeljungs og Kristinn Björnsson
forstjóri Skeljungs er stjórnarmaður í Sjóvá-Almennum tryggingum. Guðný
Björnsdóttir, lögfræðingur hjá Sjóvá-Almennum tryggingum situr í stjórn
Skeljungs.
Ráðgjöf
og umsjón vegna framkvæmdar verkefnisins er í höndum Fyrirtækjaráðgjafar
Kaupþings Búnaðarbanka.
Nánari upplýsingar veitir:
Hreiðar
Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings Búnaðarbanka, í síma 525-6108
Einar
Sveinsson, forstjóri Sjóvá–Almennra trygginga, í síma 569-2602
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri
Eimskipafélags Íslands, í síma 525-7102