Hf. Eimskipafélag Íslands hefur
aukið hlut sinn í Skagstrendingi hf. með kaupum á öllum hlutabréfum
Höfðahrepps, Nafta og Tryggingamiðstöðvarinnar og á nú 83,83% hlutafjár í
Skagstrendingi. Kaupverð hlutabréfanna
í Skagstrendingi hf. er miðað við gengið 7,2 og er kaupverðið samtals 1.051
milljónir króna. Eimskipafélagið greiðir
fyrir þessi hlutabréf með eigin
hlutabréfum að nafnverði 191 milljón króna en það jafngildir genginu 5,5.
Í framhaldi af þessum viðskiptum
mun Hf. Eimskipafélag Íslands gera öðrum hluthöfum í Skagstrendingi
yfirtökutilboð í samræmi við lög númer 34/1998. Stefnt er að sameiningu Skagstrendings og Útgerðarfélags
Akureyringa þannig að þau verði formlega hluti af sjávarútvegsstarfsemi Eimskipafélagsins.
Í mars síðast liðnum
keypti Hf. Eimskipafélag Íslands af Búnaðarbanka Íslands hlutabréf í
Skagstrendingi og Útgerðarfélagi Akureyringa og átti eftir þau kaup 40,7% hlut
í Skagstrendingi en 55,3% hlut í ÚA. Í
framhaldi af því var gert yfirtökutilboð í hlutabréf annarra hluthafa í Útgerðarfélaginu
og varð niðurstaðan sú að yfirgnæfandi meirihluti hluthafa í ÚA ákvað að taka
tilboðinu og á Eimskipafélagið nú 97,5% í Útgerðarfélagi Akureyringa.
Hf. Eimskipafélag Íslands byggir nú á þremur megin stoðum,
flutningastarfsemi, sjávarútvegsstarfsemi og fjárfestingastarfsemi. Þessar einingar verða reknar sem sjálfstæð félög innan
samstæðunnar og munu starfa með sjálfstæða stjórn, sem marka mun skýra stefnu
og áherslu, hver á sínu sviði.
Sjávarútvegur
er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi og því er mikilvægt að hafa framsækin,
öflug og leiðandi fyrirtæki sem geta stuðlað að aukinni hagkvæmni og útrás í
sjávarútvegi. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir atvinnulíf utan
höfuðborgarsvæðisins. Kaup á hlutabréfum
í Skagstrendingi er liður í því að byggja upp og reka öflugt
sjávarútvegsfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða innan samstæðu Hf.
Eimskipafélags Íslands.