Ríkisútvarpið – Ársreikningur 2006
Rekstrartap árið 2006 var 420 m.kr.
en var 196 m.kr. árið áður. Verri afkomu má rekja til hækkunar fjármagnsgjalda
og hækkunar á dagskrárefni vegna óhagstæðrar gengisþróunar auk þess sem
afnotagjöld hafa ekki fylgt verðlags- og launaþróun.
Á undanförnum árum hefur
Ríkisútvarpið tekist á við sífelldan rekstrarvanda. Upphaf hans má rekja meira
en fimm ár aftur í tímann þegar afnotagjöld fylgdu ekki almennri verðlagsþróun
auk þess sem auknar skuldbindingar voru lagðar á stofnunina. Munar þar mestu um
viðbótarframlag í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna sem kom til af kröfu
ríkisins, að núvirði um 2.730 m.kr. Þetta hefur haft í för með sér umtalsvert
hærri fjármagnskostnað hjá stofnuninni. Sífelldur rekstrarvandi hefur orðið til
þess að dregið hefur úr fjárfestingum, en árið 2006 voru þær 211 m.kr. sem er
engan veginn nóg til þess að viðhalda lágmarksbúnaði.
Rekstrartekjur Ríkisútvarpsins á
árinu 2006 voru 3.867 m.kr. og rekstrargjöld voru 3.670 m.kr. Hagnaður af
rekstri fyrir afskriftir (EBITDA) var 196 m.kr. samanborið við 271 m.kr. árið á
undan. Afskriftir fastafjármuna voru 238 m.kr. og lækka um 20 m.kr. á milli
ára. Hrein fjármagnsgjöld jukust hins vegar um 169 m.kr. á milli ára og námu
378 m.kr. árið 2006.
Fjöldi starfsmanna var að meðaltali
340 samanborið við 317 árið áður. Aukningin skýrist af því að verktakar voru
gerðir að launþegum.
Í upphafi árs var eigið fé neikvætt
um 186 m.kr. en í lok árs var það neikvætt um 606 m.kr.
Framtíðarhorfur
Reikningar Ríkisútvarpsins eru nú
birtir með neikvæðu eigin fé annað árið í röð. Það er ljóst að við það verður
ekki unað.
Ríkisútvarpið stendur nú á tímamótum.
Stjórnvöld hafa ákveðið að breyta því í opinbert hlutafélag og hefst rekstur
þess 1. apríl 2007. Samhliða því verða eignir endurmetnar og eiginfjárstaðan
bætt með framlagi úr ríkissjóði.