Markaðsfréttir
  Útgefendur
  Fréttaflokkar
  Leit
  Vefur Kauphallar
  English version
    
Prentvæn útgáfa
IG
Icelandic Group - Niðurstöður aðalfundar 23. mars 2007   26.3.2007 09:24:05
Flokkur: Hluthafafundir      Íslenska  English
 Icelandic Group - Samþykktir.pdf
 Icelandair Group - Articles of Association.pdf
Þær tillögur sem lagðar voru fyrir aðalfund Icelandic Group hf

Þær tillögur sem lagðar voru fyrir aðalfund Icelandic Group hf. föstudaginn 23. mars 2007 voru samþykktar samhljóða.

 

1.             Eftirfarandi tillaga um ráðstöfun taps síðastliðins rekstrarárs var samþykkt:

 

Stjórn Icelandic Group hf. gerir að tillögu sinni að, aðalfundur haldinn 23. mars 2007, samþykki að ekki verði greiddur út arður til hluthafa og að tap síðasta rekstrarárs verði fært til lækkunar á eigin fé félagsins.

 

2.             Eftirfarandi tillaga um þóknun til stjórnarmanna fyrir næsta kjörtímabil var samþykkt:

 

Aðalfundur Icelandic Group hf. haldinn 23. mars 2007 samþykkir að stjórnarlaun vegna ársins 2007 verði óbreytt og verða þau sem hér segir:

 

Stjórnarformaður kr. 200.000 á mánuði en aðrir stjórnarmenn kr. 100.000 á mánuði.

 

Varastjórnarmenn kr. 30.000 fyrir hvern fund sem þeir sitja, en þó að hámarki kr. 100.000 á mánuði.

 

3.             Eftirtaldir aðilar voru kjörnir í stjórn félagsins til eins árs:

 

Aðalsteinn Helgason

Baldur Guðnason

Guðmundur P. Davíðsson

Magnús Þorsteinsson

Steingrímur H. Pétursson

 

Varamenn

Páll Magnússon

Stefán Ágúst Magnússon

 

4.             Eftirfarandi tillaga félagsstjórnar um endurskoðunarfélag fyrir tímabilið var samþykkt:

 

Lagt er til að KPMG hf., kr. 590975-0449, Borgartúni 27, 105 Reykjavík, verði endurkjörið endurskoðunarfélag Icelandic Group hf. fyrir árið 2007.

 

5.             Eftirfarandi tillaga um starfskjarastefnu var samþykkt:

 

Starfskjarastefna Icelandic Group hf.

 

1. gr.  Markmið

 

Markmið starfskjarastefnu þessarar er að gera starf hjá Icelandic Group hf. að eftirsóknarverðum kosti fyrir fyrsta flokks starfsfólk og þar með tryggja félaginu stöðu í fremstu röð á alþjóðavettvangi. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að stjórn félagsins sé kleift að bjóða samkeppnishæf laun og aðrar greiðslur s.s. kaupauka og kauprétti á alþjóða mælikvarða. 

 

2. gr.  Starfskjaranefnd

 

Starfskjaranefnd skal skipuð þremur mönnum sem stjórn félagsins kýs úr sínum röðum. Nefndin starfar samkvæmt sérstöku erindisbréfi.

 

Hlutverk starfskjaranefndar er að vera leiðbeinandi fyrir félagsstjórn og framkvæmdastjórn um starfskjör æðstu stjórnenda félagsins og ráðgefandi um starfskjarastefnu. Skal nefndin jafnframt fylgjast með að starfskjör æðstu stjórnenda séu innan ramma starfskjarastefnunnar og gefa félagsstjórn skýrslu þar um árlega í tengslum við aðalfund félagsins.

 

3. gr.  Starfskjör stjórnarmanna

 

Stjórnarmönnum skal greidd föst mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert, svo sem kveðið er á um í 79. gr. laga um hlutafélög. Gerir stjórnin tillögu um þóknunina fyrir komandi starfsár og skal í þeim efnum taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans, þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, og afkomu félagsins.

 

Stjórnarmenn skulu fá fasta þóknun fyrir hvern fund sem þeir sitja í undirnefndum stjórnar og skal sú þóknun ákveðin af aðalfundi félagsins.       

 

4. gr.   Starfskjör forstjóra

 

Gera skal skriflegan ráðningarsamning við forstjóra. Kjör hans skul ávallt vera samkeppnishæf á alþjóðamarkaði.

 

Fjárhæð grunnlauna og annarra greiðslna til forstjóra skal taka mið af menntun, reynslu og fyrri störfum. Tilgreina skal önnur starfskjör í ráðningarsamningnum, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi og uppsagnarfrest. Heimilt er að semja við forstjóra um upphafsgreiðslu vegna ráðningar hans að félaginu.

 

Við ákvörðun uppsagnarfrests í ráðningarsamningi má hafa sérstök ákvæði um að uppsagnarfrestur skuli lengjast í hlutfalli við starfstíma forstjóra. Jafnframt skal, í ráðningarsamningi, geta um skilyrði uppsagnar forstjóra.

 

Endurskoða skal grunnlaun forstjóra árlega og skal við slíka endurskoðun höfð hliðsjón af mati starfskjaranefndar á frammistöðu forstjóra, þróun launakjara almennt í sambærilegum fyrirtækjum og afkomu félagsins.

 

Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt er þó við sérstök skilyrði að mati starfskjaranefndar að gera sérstakan starfslokasamning við starfslok forstjóra.

 

5. gr.  Starfskjör framkvæmdastjóra

 

Forstjóri ræður framkvæmdastjóra félagsins í samráði við stjórn félagsins. Við ákvörðun starfskjara framkvæmdastjóra gilda sömu sjónarmið og rakin eru í 4. gr.

 

6. gr.  Umbun til æðstu stjórnenda

 

Starfskjaranefnd er heimilt að leggja fram tillögu fyrir stjórn félagsins um að umbuna æðstu stjórnendum til viðbótar grunnlaunum í formi afhendingar hluta, árangurstengdra greiðslna, hlutabréfa, kaupréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu, lífeyrissamninga og starfslokasamninga.

 

Við ákvörðun um hvort veita skuli æðstu stjórnendum umbun til viðbótar grunnlaunum skal taka mið af stöðu, ábyrgð, frammistöðu og framtíðarmöguleikum viðkomandi stjórnanda innan félagsins.

 

Við veitingu kaupréttar að hlutum í félaginu skal litið til sambærilegra samninga sem áður hafa verið veittir viðkomandi, hvort sem rétturinn hefur verið nýttur eða ekki. Kaupréttur skal að jafnaði einungis nýtanlegur að þeir sem gert hafa slíka samninga séu í vinnu hjá félaginu þá er kauprétturinn kemur til framkvæmda.

 

7. gr.  Aðrir starfsmenn

 

Við ákvörðun starfskjara annarra starfsmanna skulu framkvæmdastjórar einstakra sviða taka mið af ofangreindum reglum eftir því sem við á. 

 

8. gr.  Upplýsingagjöf

 

Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir kjörum forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Upplýsa skal um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu, greiðslur frá öðrum félögum í sömu fyrirtækjasamstæðu, fjárhæð kaupauka og kaupréttar, annars konar greiðslur sem tengjast hlutabréfum í félaginu, starfslokagreiðslur ef einhverjar eru, auk heildarfjárhæðar annarra greiðslna.

 

9. gr.  Samþykkt starfskjarastefnu og fleira

 

Starfskjarastefna félagsins skal tekin til afgreiðslu á aðalfundi og skal hún tekin til endurskoðunar ár hvert og borin undir aðalfund til samþykktar eða synjunar.

 

Er starfskjarastefnan bindandi fyrir stjórn félagsins að því er varðar ákvæði um kaupréttarsamninga og hvers konar samninga eða greiðslur er fylgja þróun verðs á hlutabréfum í félaginu, sbr. 2. mgr. 79. gr. a. hlutafélagalaga. Að öðru leiti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess. Stjórn félagsins skal færa til bókar í fundargerðarbók veigamikil frávik frá starfskjarastefnunni og skulu þau frávik studd greinargóðum rökum. Gera skal grein fyrir frávikum á næsta aðalfundi félagsins.

 

Greinargerð með starfskjarastefnu Icelandic Group hf.

 

Með lögum nr. 89/2006 var m.a. gerð sú breyting á hlutafélagalögum að grein 79 a. var bætt inn í lögin. Greinin leggur þá skyldu á stjórn Icelandic Group hf. að leggja starfskjarastefnu fyrir aðalfund félagsins til samþykktar eða synjunar. Skal starfskjarastefnan mæla fyrir um laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess. Segir í lögunum að í starfskjarastefnu skuli koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjör stjórnenda og stjórnarmanna og stefnu félagsins varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn. Jafnframt skal koma þar fram hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að greiða eða umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum þeirra og þá meðal annars í formi afhendingar hluta, árangurstengdra greiðslna, hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á þeim, lánasamninga, lífeyrissamninga og starfslokasamninga.

 

Var umrædd lagabreyting gerð vegna tilmæla Framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins 2004/913/EB frá 14. desember 2004 um að stuðla að viðeigandi fyrirkomulagi að því varðar starfskjör stjórnenda í hlutafélögum sem eru skráð í kauphöll.

 

Stjórn Icelandic Group hf. hefur það að markmiði með tillögu að starfskjarastefnu, sem hér er lögð fyrir aðalfund félagsins, að marka félaginu raunhæfa starfskjarastefnu sem gerir félaginu fært að laða til sín stjórnendur í fremstu röð og tryggja þar með samkeppnishæfni félagsins á alþjóðlegum vettvangi.

 

6.             Eftirfarandi tillögur um breytingar á samþykktum félagsins voru samþykktar:

 

Tillaga um nýjar samþykktir félagsins sem fylgja með tillögum þessum. Einkum er um að ræða endurröðun greina og breytingar á orðalagi samþykkta, en hinar nýju samþykktir fela í sér eftirfarandi efnisbreytingar:

 

A.            Grein 4:

 

Varðar rafræna þátttöku í hluthafafundum og rafræna hluthafafundi.

 

Breytingarnar er að finna í ákvæðum greina 4.2-4.8, sem hljóða svo:

 

“Rétt til setu á hluthafafundum hafa hluthafar, umboðsmenn hluthafa, endurskoðendur félagsins og forstjóri, þótt ekki sé hluthafi.  Þá getur stjórnin boðið sérfræðingum setu á einstökum fundum, ef leita þarf álits þeirra eða aðstoðar.

 

Stjórn er heimilt að ákveða að hluthafar geti tekið þátt í fundarstörfum hluthafafunda með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað. Telji stjórn að tiltækur sé nægilega öruggur búnaður til að gefa hluthöfum kost á að taka þátt í fundarstörfum með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað og ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði.

 

Hluthafar sem hyggjast nýta sér rafræna þátttöku skulu tilkynna skrifstofu félagsins þar um með 5 daga fyrirvara og leggja þar fram skriflegar spurningar varðandi dagskrá eða framlögð skjöl sem þeir óska svara við á fundinum.

 

Hluthafar skulu hafa aðgengi að leiðbeiningum um þátttöku í hluthafafundi með rafrænum hætti ásamt aðgangsorði og nauðsynlegum hugbúnaði til slíkrar þátttöku. Jafngildir innslegið aðgangsorð í tölvuforrit undirskrift viðkomandi hluthafa og telst viðurkenning á þátttöku hans í hluthafafundinum.

 

Stjórn er heimilt að ákveða að hluthafafundur verði aðeins haldinn rafrænt.

 

Telji stjórnin gerlegt að halda fundinn algjörlega rafrænt með viðeigandi búnaði og gefa hluthöfum þannig kost á þátttöku í fundarstörfum og atkvæðagreiðslu skal í fundarboði koma fram upplýsingar um tæknibúnað auk upplýsinga um það hvernig hluthafar tilkynni um rafræna þátttöku sína og hvar þeir nálgist upplýsingar, leiðbeiningar og aðgangsorð til  þátttöku í fundinum. Jafngildir innslegið aðgangsorð í tölvuforrit undirskrift viðkomandi hluthafa og telst viðurkenning á þátttöku hans í hluthafafundinum.

 

Ef stjórn telur ekki framkvæmanlegt að gefa hluthöfum kost á þátttöku í hluthafafundi rafrænt skal hluthöfum gefinn kostur á að greiða atkvæði um tillögur eða taka þátt í kosningum bréflega. Setur stjórn reglur um framkvæmd slíkrar kosningar.”

 

B.            Grein 4.13:

 

Um að á dagskrá aðalfundar verði, auk núverandi aðalfundarstarfa, tillögur um starfskjarastefnu.

 

Við bætist nýr liður sem 4. liður og hljóðar hann svo:

 

“Tillögur félagsstjórnar um starfskjarastefnu.”

 

C.            Grein 4.17:

 

Varðar styttingu frests til boðunar hluthafafundar úr tveimur vikum hið skemmsta í eina viku hið skemmsta.

 

Hljóðar grein 4.17 svo:

 

“Hluthafafundir skulu boðaðir með skemmst einnar viku fyrirvara en lengst fjögurra vikna fyrirvara. Æskilegt er að aðalfundur verði boðaður með tveggja vikna fyrirvara telji stjórn félagsins það mögulegt en heimilt er að boða fundinn með einnar viku fyrirvara.”

 

D.            Grein 5:

 

Varðar upplýsingar um framboðstilkynningu þeirra sem gefa kost á sér til stjórnarsetu.

 

Hljóða ákvæði 5. gr. um framboð til félagsstjórnar svo:

 

“Þeir sem hyggjast kost á sér til stjórnarkjörs skulu tilkynna félagsstjórn um framboð sitt skemmst 5 dögum fyrir hluthafafund. Í tilkynningu um framboð til stjórnar skal gefa, auk nafns frambjóðanda, kennitölu og heimilisfangs, upplýsingar um aðalstarf, önnur stjórnarstörf, menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Þá skal einnig upplýsa um hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu.

 

Félagsstjórn skal fara yfir framboðstilkynningar og gefa hlutaðeigandi, með sannanlegum hætti, kost á því að bæta úr þeim göllum sem eru á tilkynningunni innan tiltekins frests. Ef ekki er bætt úr göllum á framboðstilkynningunni frestsins, úrskurðar félagsstjórn um gildi framboðs. Unnt er að skjóta niðurstöðu félagsstjórnar til hluthafafundar sem fer með endanlegt úrskurðarvald um gildi framboðs.

 

Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar skulu lagðar fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félagsins eigi síðar en 2 dögum fyrir hluthafafund.”

 

E.            Grein 15:

 

Varðar heimild félagsins til lántöku með sérstökum skilyrðum.

 

Stjórn Icelandic Group hf. leggur fyrir aðalfund eftirfarandi tillögu um heimild stjórnar félagsins til að taka víkjandi lán með sérstökum skilyrðum er veitir lánardrottni rétt til þess að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hluti í því skv. VI. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995.

 

Lánið verði víkjandi og víki fyrir öllum öðrum kröfum á hendur lántaka nema kröfu um endurgreiðslu hlutafjár.

 

Þá felst í tillögunni heimild til hlutafjárhækkunar um allt að kr. 5.000.000.000 og verði stjórn félagsins heimilað samkvæmt 48. gr. hlutafélagalaga að breyta 2. gr. samþykkta félagsins til samræmis við þá hlutafjárhækkun sem leiða kann af breytingu lánsins í hluti í félaginu.

 

Tillaga stjórnarinnar er svohljóðandi:

 

“Aðalfundur Icelandic Group hf., sem haldinn er þann 23. mars 2007, samþykkir, með vísan til VI. kafla hlutafélagalaga, einkum 48. gr., að veita stjórn félagsins heimild til að taka lán er veitir lánardrottni rétt til þess að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hluti í því. Skal félaginu heimilt að gefa út skuldaskjöl að fjárhæð allt að kr. 5.000.000.000 eða samsvarandi fjárhæð í evrum og skal lánstíminn vera allt að 5 ár. Skuldin ber ársvexti sem skulu vera REIBOR að viðlögðu 5% vaxtaálagi. Þó skulu vextir vera LIBOR að viðlögðu 5% vaxtaálagi ef fjárhæð lánsins er í evrum. Vextir skulu greiðast árlega, í fyrsta sinn hinn 31. desember 2007. Á gjalddaga vaxta greiðist helmingur áfallinna en ógreiddra vaxta, en hinn helmingurinn leggst við höfuðstól og kemur til uppgjörs á greiðsludegi, sem skal vera 31. desember 2011. Skal við útreikning vaxta leggja til grundvallar höfuðstól að viðbættum vöxtum sem leggja ber við höfuðstól skv. framansögðu.

 

Lán þetta er víkjandi og víkur fyrir öllum öðrum kröfum á hendur lántaka nema kröfu um endurgreiðslu hlutafjár. Við gjaldþrot eða slit lántaka endurgreiðist lánið á eftir öllum almennum kröfum en á undan kröfum til endurgreiðslu hlutafjár.

 

Á tímabilinu frá 1. desember 2011 til 31. desember 2011 er lánveitanda heimilt að breyta höfuðstól skuldarinnar að viðbættum vöxtum í hluti í Icelandic Group hf. Á sama hátt getur lánveitandi, á vaxtagjalddögum (í fyrsta sinn hinn 31. desember 2007), breytt öllu láninu eða hluta þess, þó að lágmarki 20% af höfuðstól skuldarinnar ásamt áföllnum vöxtum í hlutafé.

 

Lánveitanda er ennfremur heimilt að breyta höfuðstól skuldarinnar að viðbættum vöxtum í hluti í Icelandic Group hf. áður en ráðstafanir félagsins eða sem tengjast félaginu, s.s. hækkun eða lækkun hlutafjár, frekari skuldbindingar samkvæmt breytanlegum lánum, útgáfa áskriftarréttinda, arðsúthlutun og/eða annars konar úthlutun á fjármunum félagsins til hluthafa á sér stað. Lánveitanda skal tilkynnt um slíkar fyrirhugaðar aðgerðir með nægum fyrirvara til að hann geti nýtt sér þennan rétt sinn.

 

Með fyrirvara um umreiknun breytigengis samkvæmt neðangreindu skal gengi hluta við nýtingu breytiréttar vera kr. 7,30 á hlut.

 

Kjósi lánveitandi að breyta skuld sinni í hluti í Icelandic Group hf. skal hann tilkynna félaginu það skriflega. Skal stjórn félagsins, eins fljótt og kostur er, gefa út hlutabréf í Icelandic Group hf. til lánveitanda honum að kostnaðarlausu til þess að fullnægja breytiréttinum.

 

Sé skuldinni breytt í hluti í Icelandic Group hf. telst fullnaðaruppgjör hafa farið fram þegar lántaki hefur gefið út nýja hluti í Icelandic Group hf. á nafn lántakanda. Hlutabréf eru gefin út með rafrænum hætti í samræmi við grein 2.6 í samþykktum félagsins og telst félagið hafa fullnægt skyldum sínum þegar hlutabréfin hafa verið færð í tölvukerfi Verðbréfaskráningar Íslands á kennitölu lánveitanda.

 

Tryggt skal í skilmálum lánsins að einstakar ráðstafanir félagsins eða sem tengjast félaginu, s.s. hækkun eða lækkun hlutafjár, frekari skuldbindingar samkvæmt breytanlegum lánum, útgáfa áskriftarréttinda, arðsúthlutun og/eða annars konar úthlutun á fjármunum félagsins til hluthafa hafi ekki áhrif á verðmæti breytiréttarins. Þannig skal breytigengið endurreiknað og uppfært í slíkum tilvikum með þeim hætti að það breytist í réttu hlutfalli við þær breytingar sem verða á verði og/eða verðmæti hluta í félaginu vegna slíkra ráðstafana, allt með það að markmiði að verðmæti breytiréttarins minnki ekki. Skal nánari útfærsla slíkrar uppfærslu breytigengisins koma fram í skuldaskjölum þeim sem stjórn félagsins gerir við einstaka lánveitendur og hefur stjórn félagsins fulla heimild til að semja um nánari skilmála slíkrar útfærslu við lánveitendur. Félagsstjórn hefur samhliða heimild til að breyta samþykktum félagsins þannig að endanleg útfærsla uppfærslunnar komi skýrlega fram í samþykktum félagsins.  

 

Ef hlutafé lántaka verður hækkað á lánstímanum hefur lánveitandi ekki rétt til forgangs að nýjum hlutum. Skal lánveitandi að öðru leyti ekki njóta réttinda sem hluthafi í félaginu fyrr en hann hefur neytt breytiréttar síns og hinir nýju hlutir hafa verið færðir í tölvukerfi Verðbréfaskráningar Íslands á kennitölu lánveitanda.

 

Verði lántaka slitið á lánstímanum, þ.m.t. við samruna eða skiptingu, áður en láninu hefur verið breytt í hlutafé eða það greitt, skal þess gætt að staða skuldbindingar samkvæmt láninu verði með þeim hætti að skuldbindingin sé víkjandi fyrir öðrum skuldum lántaka (en jafnsett öðrum víkjandi lánum sem tekin verða samkvæmt þessari heimild) en framar stöðu hlutafjár í félaginu.

 

Að öðru leyti en að framan greinir skal ákvörðun um lækkun hlutafjár í félaginu, útgáfa breytanlegra skuldabréfa, lána eða áskriftarréttindi ekki hafa áhrif á réttarstöðu lánveitanda áður en kröfu hans verður breytt í hlutafé.

 

Skal stjórn félagsins heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 5.000.000.000 að nafnverði til að efna ofangreinda skuldbindingu. Falla hluthafar frá forgangsrétti til áskriftar að hlutum sem gefnir verða út skv. þessari heimild. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skráningardegi hlutafjárhækkunar.

 

Skal ofangreind heimild stjórnar gilda til 23. mars 2008.”

 

Verði tillagan samþykkt verður hún tekin upp í samþykktir félagsins sem grein 15.1, í stað þess ákvæðis sem var í grein 12.01 í eldri samþykktum félagsins.

 

Greinargerð.

 

Tillögur þær sem gerðar eru um efnisbreytingar á samþykktum eiga sér flestar stoð í hlutafélagalögum nr. 2/1995, sbr. lög nr. 89/2006. Með fyrirvara um neðangreint er að öðru leyti einungis um að ræða breytingar á uppröðun og orðalagi samþykkta í þeim tilangi að gera þær skýrari.

 

Tillaga sú sem gerð er um breytingu á ákvæðum 15. gr. samþykktanna (nú grein 12.01) felur í sér að stjórn félagsins er heimilt að taka lán í nafni félagsins sem heimilar lánveitanda að breyta fjárhæð lánsins, auk áfallinna vaxta, í hlutafé í félaginu. Gengið sem notað skal við slíka breytingu skal vera kr. 7,3 á hlut, en það gengi er þó háð breytingum vegna tiltekinna ráðstafana stjórnar félagsins og/eða félagsins sjálfs, s.s. hækkunar eða lækkunar hlutafjár, arðsúthlutunar o.s.frv. Markmiðið er að tryggja að verðmæti breytiréttarins rýrni ekki vegna slíkra ráðstafana. Nánari útfærsla þeirra breytinga sem orðið geta á breytigenginu, þ.e. nákvæmari útlistun á þeim aðferðum sem nýttar skulu við endurreikning breytigengisins, skulu koma fram í skilmálum einstakra skuldaskjala.

 

Tillagan felur í sér breytingu á ákvæði 12.01 í núgildandi samþykktum félagsins sem samþykkt var á hluthafafundi þann 16. janúar s.l. Eru breytingar einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi felur tillagan í sér að stjórn félagsins er veitt heimild til að taka breytanlegt lán með nánar tilteknum skilmálum, en ákvæði 12.01 mælir nú aðeins fyrir um að félaginu sé heimilt að taka slík lán. Í öðru lagi felur tillagan í sér fyrirmæli um að breytigengið verði endurreiknað vegna tiltekinna ráðstafana, sbr. ofangreint. Loks felur tillagan í sér að stjórn félagsins er heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 5.000.000.000 til að efna skuldbindingar félagsins samkvæmt hinum breytanlegu lánum, en heimildin hljóðaði áður upp á kr. 1.100.000.000.

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

Björgólfur Jóhannsson

Sími 560 7800

 

 


Til baka