Á stjórnarfundi Jarðborana sem
haldinn var í dag, 27. nóvember 2006, var ákveðið að skerpa áherslur í rekstri Jarðborana
hf. og gera breytingar á lagalegu skipulagi félagsins. Ætlunin er, að framvegis
muni Jarðboranir hf og Björgun ehf. verða hliðsett á þann hátt, að þau verði
lögð inn í nýtt eignarhaldsfélag, Volcano Holding ehf. Samtímis er félagið
endurfjármagnað.
Yfirstjórn Volcano Holding ehf. verður sú sama og er nú hjá
Jarðborunum hf. og þetta mun engin áhrif hafa á rekstur samstæðu Jarðborana hf.
eins og honum er nú háttað. Stjórnendur Jarðborana telja að þetta nýja skipulag
og fjármögnun muni styðja mjög við útrás félagsins og aukin umsvif þess.
Sjá viðhengi
Sem liður í þessu, var ákveðið að leggja fram tillögu á
hluthafafundi sem haldinn verður þann 30. desember 2006 að skipta félaginu, miðað við 1. október 2006, í þrjú félög á grundvelli 133. gr. laga nr.
2/1995 um hlutafélög:
-
Jarðboranir hf. sem mun áfram fara með borrekstur
félagsins
-
Sérstakt eignarhaldsfélag um Björgun ehf. og
-
Sérstakt eignarhaldsfélag sem mun taka við
skuldabréfaflokkum Jarðborana, JRDB 03 1, JRDB 04 1 og JRDB 05 1
Félögin þrjú, sem verða til við skiptinguna, bera eftir
hana ábyrgð á nefndum skuldabréfaflokkum eins og nánar er lýst í ákvæði 133.
gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Þar segir m.a. að þátttökufélög í skiptingu
beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem hafa stofnast þegar upplýsingar um
skiptingaráætlun eru birtar upp að þeim nettóverðmætum sem koma í hlut viðkomandi
félags við skiptingu.
Einnig ákvað stjórn Atorku Group hf í dag að yfirtaka
eignarhaldsfélagið sem tekur við skuldabréfaflokkunum og munu þeir því renna
inn í Atorku þegar nauðsynlegum ráðstöfunum þar að lútandi hefur verið lokið.
Hlutafé Atorku eftir að skuldabréfaflokkarnir hafa verið yfirteknir verður
óbreytt. Þetta mun hins vegar gera það að verkum að Atorka mun fá til sín
reiðufé sem nemur fjárhæð skuldabréfaflokkanna, en mun eftir að öllum
ráðstöfunum er lokið bera ábyrgð á greiðslu þeirra.
Í gær voru í tengslum við þetta undirritaðir samningar
Volcano Holding ehf við Landsbanka Íslands sem samanstanda af 5.000 milljón kr. langtímaláni, 1.000
milljón kr. rekstrarlánalínu og 3.500 milljón króna ádráttarlínu til
fyrirtækjakaupa, og ætlaðir eru til fjármögnunar á samstæðu félagsins. Félagið
hefur þessu til viðbótar um tvo milljarða króna í handbæru fé.
“Með þessum
breytingum er Jarðborunum gert kleift að skerpa áherslur á afkomueiningar og
styrkja stoðir félagsins enn frekar. Jafnframt eykst fjárhagslegur styrkur
félagsins sem nýta má til sóknar á erlendum mörkuðum. Breytingarnar munu ekki
hafa áhrif á starfsfólk félaganna,” segir Bent Einarsson forstjóri Jarðborana.
“Þessi aðgerð
veitir Atorku svigrúm og sóknarfæri til enn frekari fjárfestinga samhliða því
að styrkja fjárhagslegt bolmagn Jarðborana til útrásar,” segir Magnús Jónsson forstjóri
Atorku.
Allar frekari upplýsingar veita Magnús Jónsson í síma 840 6240 og Bent
Einarsson í síma 858 5210.