Neðangreint er samkomulag sem var samþykkt í bæjarstjórn Húsavíkur
21.okt.2003. Unnið verður á næstunni við að framfylgja ákvæðum samkomulagsins.
Eftir þessi viðskipti - gangi þau eftir - á Vísir hf. 71,66% í Fiskiðjusamlagi
Húsavíkur, félagið á 4,26% í sjálfu sér og tengdir aðilar 15,58%.
Samkomulag
Undirritaðir f.h. Húsavíkurbæjar, Fiskiðjusamlags Húsavíkur
hf. og Vísis hf. gera með sér svofellt samkomulag um viðskipti með hlutabréf í
Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf., uppbyggingu á veiðum og vinnslu á rækju á
Húsavík og uppbyggingu bolfiskvinnslu á Húsavík.
Vísir hf., kaupir og Húsavíkurbær selur öll hlutabréf
Húsavíkurbæjar í Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf., en um er að ræða 26,44% eða
163.825.617 hluti að nafnverði á genginu 1,91 eða 312.906.928 kr. Kaupverð
greiðist 30 dögum frá undirritun kaupsamnings.
Húsavíkurbær
leggur fram hlutafjárloforð fyrir kr. 150.000.000.- í nýtt félag um veiðar og
vinnslu á rækju á Húsavík. Félagið byggir á öllum eignum Fiskiðjusamlags
Húsavíkur hf., er lúta að rækju. Þessar eignir, þ.e. rækjuvinnsla og búnaður,
og rækjukvótar eru verðmetnir á kr. 500.000.000.- sem verða lagðar skuldlaust í
hið nýja félag sem eigið framlag Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf. í því. Á sama
tíma og Húsavíkurbær lofar 150.000.000.- skrifa aðrir nýir hluthafar sig fyrir
kr. 100.000.000.- a.m.k. svo heildar hlutafé hins nýja félags verði í upphafi
a.m.k. 750.000.000.-. og er loforðið skilyrt því að sú upphæð náist með
framangreindum hætti. Greiðsla hlutafjárloforðsins fer fram þegar Vísir hf.
hefur greitt Húsavíkurbæ kaupverð hlutabréfa í Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf.
Markmiðin með þessum breytingum eru tvíþætt. Annars vegar að
efla rækjuvinnslu og rækjuútgerð á staðnum í sjálfstæðu félagi, en stefnt er að
því að eigið fé þess félags verði a.m.k 1 milljarður og eignir í formi
rækjuverksmiðju, skipa og aflaheimilda. Hinsvegar að efla og auka
bolfiskvinnslu Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf. verulega frá því sem nú er.
Ákvæði samkomulags þessa um hlutabréfaviðskipti
Húsavíkurbæjar og Vísis hf. og
hlutafjárloforð Húsavíkurbæjar í hið nýja félag um veiðar og vinnslu á
rækju eru háð því skilyrði að kaup takist á rækjuskipi/skipum og aflaheimildum
í rækju að verðmæti a.m.k.6 - 800 milljónir króna.